Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 9  —  9. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um íslensk landshöfuðlén.

Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.



I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og styrkja tengsl þeirra við Ísland, með því að kveða á um örugga, gagnsæja og skilvirka umsýslu þeirra.

2. gr.

Gildissvið.

    Lög þessi gilda um rekstur landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað til notkunar á netinu ásamt nafnaþjónustu fyrir höfuðlén og skráningu léna undir þeim.
    Þá gilda lög þessi, eftir því sem við á, um höfuðlénið .eu, sbr. 17. gr.

3. gr.

Stjórn lénamála.

    Ráðherra hefur yfirumsjón með framkvæmd laga þessara.
    Póst- og fjarskiptastofnun sinnir eftirliti skv. 13. gr.

4. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim er merking eftirtalinna orða og hugtaka sem hér segir:
     1.      Almennt höfuðlén er höfuðlén sem ekki hefur verið úthlutað til ríkis eða landsvæðis.
     2.      Almennt IP-fjarskiptanet er það sem er samkvæmt almennri málnotkun kallað netið.
     3.      Höfuðlén er efsti hluti lénakerfisins og vísar til þess hluta sem kemur á eftir síðasta punktinum í heiti léns og er samþykkt af þar til bærum alþjóðlegum aðila. Höfuðlén skiptast í almenn höfuðlén og landshöfuðlén.
     4.      IP-fjarskiptanet er fjarskiptanet sem flytur gagnapakka samkvæmt IP-fjarskiptareglu.
     5.      IP-tala er númer tækis sem tengt er almennu IP-fjarskiptaneti og úthlutað hefur verið af þar til bærum aðila til aðgreiningar frá öðrum tækjum.
     6.      Íslenskt landshöfuðlén er höfuðlén sem hefur beina skírskotun til Íslands, t.d. .is.
     7.      Landshöfuðlén eru þau höfuðlén sem hafa beina skírskotun til tiltekinna ríkja.
     8.      Lén er auðkenni í almennum IP-fjarskiptanetum. IP-tala er að baki hverju léni.
     9.      Lénaheitakerfi er stigskipt dreift gagnasafn sem annast fyrirspurnir um lénsheiti.
     10.      Nafnaþjónn er tölva sem svarar fyrirspurnum um lén.
     11.      Rétthafaskrá er miðlæg skrá þar sem fram koma upplýsingar um rétthafa léna, tengiliði þeirra og nafnaþjóna.
     12.      Rétthafi er einstaklingur eða lögaðili sem skráður er fyrir léni í rétthafaskrá.
     13.      Skráningaraðili er aðili sem getur á grundvelli samnings við skráningarstofu séð um skráningu léna undir íslensku höfuðléni og breytingar á upplýsingum sem tengjast því fyrir hönd rétthafa léna.
     14.      Skráningarstofa er lögaðili sem annast og vinnur að skráningu léna undir landshöfuðléni tengdu Íslandi og fer með umsýslu þess á grundvelli almennrar heimildar.

5. gr.

Persónuvernd.

    Vinnsla persónuupplýsinga, þ.e. tengiupplýsinga og kennitalna sem hinn skráði lætur í té, skráningarstofa, skráningaraðilar eða aðrir þeir sem starfa í umboði skráningarstofu afla sjálfir eða berast frá þriðja aðila, er heimil í þeim tilgangi að sinna skyldum samkvæmt lögum þessum að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

II. KAFLI

Skráningarstofa.

6. gr.

Almenn heimild.

    Almenn heimild felur í sér réttindi til að starfa sem skráningarstofa hér á landi samkvæmt ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna sem settar eru samkvæmt þeim.
    Skilyrði almennrar heimildar til reksturs skráningarstofu hér á landi eru að:
     a.      almennir viðskiptaskilmálar og gjaldskrár sem um þjónustuna gilda séu aðgengilegar á vef,
     b.      ákvæði laga þessara séu uppfyllt,
     c.      lögheimili skráningarstofunnar sé á Íslandi,
     d.      rétthafaskrá og vinnsla hennar sé staðsett á Íslandi,
     e.      ársreikningar skráningarstofu séu gerðir í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga og sendir Póst- og fjarskiptastofnun og
     f.      stjórnarmenn og framkvæmdastjóri séu lögráða, fjár síns ráðandi og hafi ekki á síðustu þremur árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. eða lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

7. gr.

Tilkynning um starfsemi.

    Skráningarstofa skal tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um starfsemi sína innan átta vikna frá því að hún hefur starfsemi.
    Tilkynning skráningarstofu skal innihalda upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skráningar. Um form og efni tilkynningar skal getið í reglugerð sem ráðherra setur.
    Póst- og fjarskiptastofnun skal staðfesta skráningu aðila á skrá yfir skráningarstofur innan fjögurra vikna frá móttöku tilkynningar samkvæmt ákvæði þessu, enda sé það mat stofnunarinnar að skilyrði 6. gr. sé uppfyllt.
    Hyggist skráningarstofa leggja niður starfsemi, að hluta eða í heild, skal tilkynna það til Póst- og fjarskiptastofnunar með minnst 12 vikna fyrirvara.

8. gr.

Hlutverk skráningarstofu.

    Skráningarstofa fer með daglega umsjón landshöfuðléns eða léna og skal gegna skyldum sínum á öruggan og skilvirkan máta í þágu almannahagsmuna.
    Hún skal meðal annars:
     a.      halda rétthafaskrá og aðrar upplýsingar sem eru nauðsynlegar vegna nafnaþjónustu,
     b.      reka og halda skrá um nauðsynlega nafnaþjóna fyrir landshöfuðlén og tryggja öryggi þeirra og högun í samræmi við gæðastaðla þar til bærs alþjóðlegs aðila,
     c.      stuðla að því að nauðsynleg nafnaþjónusta fyrir lén rétthafa sé ætíð virk og sett upp samkvæmt viðurkenndum stöðlum og reglum þar til bærs alþjóðlegs aðila,
     d.      stuðla að skilvirkri svörun við fyrirspurnum um undirlén höfuðléns,
     e.      viðhafa skilvirka vernd gagna,
     f.      stuðla að skilvirkum verkferlum sem uppfylla viðurkennda gæðastaðla þar til bærs alþjóðlegs aðila,
     g.      setja reglur um lénaskráningar skv. 9. gr. og framfylgja þeim og
     h.      aðstoða stjórnvöld í samræmi við 11. gr.
    Í rétthafaskrá, skv. a-lið 2. mgr., er heimilt að skrá nauðsynlegar upplýsingar í þeim tilgangi að:
     a.      sannreyna réttmæti skráningar,
     b.      innheimta þóknun fyrir þjónustu eða
     c.      senda innskráningarkóða í símanúmer.

III. KAFLI

Skráning léna.

9. gr.

Skráning léna.

    Skráning léna skal vera stafræn í þar til gerðu skráningarkerfi á vegum skráningarstofu og í samræmi við reglur hennar, sbr. g-lið 8. gr.
    Skráningarstofa setur reglur um skráningu léna. Ráðherra getur í reglugerð sett viðmið sem unnið skal út frá við setningu reglnanna, svo sem um gagnsæi, jafnræðissjónarmið, réttindi rétthafa, réttindi tengiliða, hagsmuni notenda o.fl.
    Skráningarstofa skal stuðla að því að rétthafar léna séu upplýstir um skilyrði skráningar léna samkvæmt lögum þessum. Séu skilyrði um skráningu léna ekki uppfyllt skal skráningarstofa beina ábendingu um úrbætur til rétthafa. Sé ábendingum um úrbætur ekki sinnt skal skráningarstofa fjarlægja vísanir til lénsins úr nafnaþjónum landshöfuðlénsins þar til bætt hefur verið úr. Verði aðili uppvís að því að misnota skráningu léna er skráningarstofu heimilt að loka aðgangi hans að skráningarkerfi.
    Skráningarstofu er heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu.

10. gr.

Lokun, læsing og afskráning léna.

    Skráningarstofu er heimilt að afskrá lén undir íslensku landshöfuðléni eða loka léni ef eitt af eftirfarandi á við:
     a.      skráningarupplýsingar þess eru augljóslega rangar og/eða ófullnægjandi,
     b.      tæknileg uppsetning er ófullnægjandi,
     c.      rétthafi borgar ekki árgjaldið eða
     d.      vistunaraðilinn vill taka lénið niður.
    Skráningarstofa skal í þessum tilvikum leitast við að senda rétthafa léns áskorun um úrbætur á skráningarupplýsingum áður en lén er afskráð.
    Skráningarstofu er heimilt að læsa léni undir íslensku landshöfuðléni ef beiðni þar um er studd gögnum um meðferð máls fyrir dómstólum, stjórnvöldum, úrskurðarnefnd léna eða öðrum aðila sem á hverjum tíma telst bær til að úrskurða í viðkomandi máli. Sama gildir um fyrirhugaða meðferð máls ef lagðar eru fram óbirtar stefnur, kærur o.s.frv. Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um læsingu léna, svo sem frá hverjum beiðni um læsingu getur komið, hvaða gögn þarf að leggja fram, o.fl.
    Skráningarstofu er skylt að afskrá lén undir íslensku landshöfuðléni eða loka léni sé það ólögmætt samkvæmt dómi eða endanlegum úrskurði.

11. gr.

Lokun og haldlagning skráðra léna.

    Lögregla getur krafist þess, að undangengnum dómsúrskurði, að skráningarstofa loki léni sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni í eftirfarandi tilvikum:
     a.      ef rétthafi léns, umboðsmaður hans eða þjónustuaðili hefur náin tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða nýtir lénið í þágu þeirrar starfsemi eins og sú starfsemi er skilgreind í almennum hegningarlögum eða
     b.      ef lén er notað til að miðla ólöglegu efni eða efni sem hvetur til refsiverðrar háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög og meint brot getur varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira.
    Lögregla getur krafist þess, að undangengnum dómsúrskurði, að haldleggja lén sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni, taka yfir forræði þess og reka lénið tímabundið í tengslum við rannsókn opinbers máls og öflun sönnunargagna.
    Kröfum í einkamáli er varða greiðslu skaðabóta vegna athafna starfsmanna skráningarstofu samkvæmt ákvæði þessu verður ekki beint að starfsmönnum skráningarstofu eða skráningarstofunni sjálfri. Íslenska ríkið ber ábyrgð á athöfnum starfsmanna skráningarstofa vegna aðgerða á grundvelli þessa ákvæðis eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstóli. Verði mál höfðað gegn starfsmanni skráningarstofu, þrátt fyrir 1. málslið, greiðir íslenska ríkið allan kostnað hans við rekstur málsins og aðrar áfallnar kröfur af því tilefni.

12. gr.

Réttindi og skyldur rétthafa.

    Rétthafi léns sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni hefur einkaafnotarétt af hinu skráða léni meðan það uppfyllir reglur skráningarstofu og það hefur ekki verið afskráð.
    Rétthafi ber ábyrgð á:
     a.      að notkun léns sé í samræmi við gildandi lög og reglur,
     b.      greiðslu gjalda vegna skráningar og endurnýjunar léns,
     c.      að skráning léns og tengiliða þess sé rétt og
     d.      að vistun léns sé tæknilega viðunandi.
    Rétthafi ber ábyrgð á að nafn á léni samrýmist réttmætum og lögvernduðum hagsmunum hans og skerði ekki lögvarin réttindi annarra. Nafn léns má ekki tengjast refsiverðri starfsemi eða brjóta gegn lögum. Nafn á léni þarf enn fremur að samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og ekki vera til þess fallið að skaða orðspor landsins að öðru leyti.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Eftirlit.

    Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með því að starfsemi skráningarstofu uppfylli skilyrði laga þessara.
    Stofnunin skal a.m.k. einu sinni á tveggja ára fresti óska eftir upplýsingum frá skráðum skráningarstofum til að kanna hvort þær uppfylli skilyrði 6. og 8. gr. Um skil á upplýsingum gildir skilafrestur sem tilgreindur eru í 7. gr.

14. gr.

Dagsektir.

    Póst- og fjarskiptastofnun getur gert skráningarstofu að greiða dagsektir ef hún sinnir ekki skyldum skv. II. kafla. Áður en dagsektir eru lagðar á skal gefa skráningarstofu færi á að bæta úr innan hæfilegs frests. Slíkar dagsektir mega nema allt að 50.000 kr. á sólarhring. Skal upphæð þeirra fara eftir eðli brots.
    Ef ákvörðun um dagsektir er skotið til dómstóla falla dagsektir ekki á fyrr en dómur er endanlegur. Dagsektir renna í ríkissjóð og má án undangengins dóms gera aðför til fullnustu þeirra samkvæmt lögum um aðför.

15. gr.

Rekstur landshöfuðléns á stríðstímum eða vegna yfirvofandi hryðjuverkaárásar.

    Ef Ísland á í stríði, stríðshætta er fyrir hendi eða slíkar aðstæður ríkja utan Íslands að hætta sé á að Ísland lendi í stríði eða verði fyrir hryðjuverkaárás getur ríkisstjórn Íslands sett rekstri landshöfuðléns þær viðbótarreglur sem nauðsynlegar þykja vegna varna Íslands, varna Atlantshafsbandalagsins og almenns öryggis ríkisins.

16. gr.

Fagráð.

    Fjarskiptaráð sem starfar samkvæmt lögum um fjarskipti skal jafnframt gegna hlutverki fagráðs um lénamál og vera ráðherra til ráðgjafar um slík mál.
    Skráningarstofa skal tilnefna áheyrnarfulltrúa með tillögurétt til að sitja fundi fjarskiptaráðs þegar lénamálefni eru á dagskrá.

17. gr.

Höfuðlénið .eu.

    Ráðherra er í reglugerð heimilt að setja reglur um notkun .eu höfuðlénsins hér á landi í því skyni að tryggja notendum hérlendis aðgang að .eu höfuðléninu.

18. gr.

Reglugerð.

    Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða nánar á framkvæmd laga þessara, svo sem um:
     a.      form og efni skráningar, skv. 2. mgr. 7. gr.,
     b.      viðmið reglna sem skráningarstofur setja, skv. 2. mgr. 9. gr. og
     c.      læsingu léna, skv. 3. mgr. 10. gr.

19. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Ríkissjóður á forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC, kt. 660595–2449.

II.

    Skráningarstofa sem starfar þegar lög þessi taka gildi hefur átta vikna frest frá gildistöku reglugerðar sem ráðherra setur með heimild í 7. gr. til að tilkynna starfsemi sína til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 150. löggjafarþingi (612. mál, þskj. 1031) og er nú lagt fram að nýju að teknu tilliti til athugasemda sem bárust umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis á því þingi eins og efni stóðu til. Efnisatriði frumvarpsins og sú stefna sem fram kom í þskj. 1031 er óbreytt.
    Frumvarp þetta er samið í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Tilurð þess á sér nokkra forsögu en segja má að undirbúningsvinna við frumvarpið hafi farið af stað árið 2005 í kjölfar þess að starfsemi sú sem heldur utan um landshöfuðlénið .is var einkavædd. Á 139. löggjafarþingi var frumvarp til laga um landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén lagt fram (725. mál, þskj. 1249) en náði það ekki fram að ganga. Sama frumvarp var lagt fram á 140. löggjafarþingi (268. mál, þskj. 290) en fékk ekki framgang á Alþingi.
    Framangreind frumvörp áttu það sameiginlegt að kveða á um starfsleyfi fyrir skráningarstofu, þ.e. Internet á Íslandi hf., ISNIC, talsverðar eftirlitsskyldur eftirlitsaðila og efnisreglur um skráningu léna. Frumvörpin sættu talsverðri gagnrýni af hálfu hagsmunaaðila og því var farin sú leið við undirbúning þessa frumvarps að funda með helstu hagsmunaaðilum til að fá fram þeirra sjónarmið og koma að sjónarmiðum stjórnvalda. Fundað var með Internet á Íslandi hf., ISNIC; Póst- og fjarskiptastofnun; Samtökum iðnaðarins og Neytendastofu.
    Við samningu frumvarps þessa var einkum horft til öryggissjónarmiða. Einnig var horft til mögulegra áhrifa sem notkun .is getur haft á ímynd Íslands, neytendasjónarmiða og til annarra Norðurlandaþjóða. Einkum var litið til sænskra laga um sama efni (s. lag (2006:24) om nationella toppdomäner för Sverige på internet) en einnig til sambærilegrar löggjafar annars staðar á Norðurlöndum. Loks var litið til sjónarmiða hagsmunaaðila og athugasemda sem bárust við áform um frumvarpsgerðina og drög að frumvarpinu sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Tilefni til lagasetningar.
    Hér verður ekki gerð grein fyrir stjórnarháttum netsins og öllum þeim fyrirtækjum, nefndum og stofnunum sem þar koma að málum. Álitaefni í því sambandi eru þó mörg og alþjóðleg. Þó er rétt að benda á að á síðari misserum hefur umræða um stjórnarhætti netsins ekki snúist um það hvort og að hvaða marki ætti að stjórna því, heldur hverjir. Lögð hefur verið aukin áhersla á að stjórnarhættir netsins eigi ekki aðeins að þróast með vísan til tæknilegra þátta heldur stefnumótunar er lýtur að almannahagsmunum eins og net- og upplýsingaöryggi og að takast þurfi á við margháttaðar spurningar um notkun netsins. Enn fremur hefur verið lögð áhersla á fullveldi ríkja hvað varðar almenna stefnumótun í málefnum landshöfuðléna en þau sjónarmið að ríki beri bæði rétt og skyldu til að sinna þessu hafa meðal annars verið staðfest í leiðbeinandi reglum alþjóðlegs samráðsvettvangs stjórnvalda um lénamál, Governmental Advisor Committee (GAC) sem starfar undir Internet Corporation for Assigned Names and Numbers (ICANN). ICANN er bandarískt fyrirtæki sem stofnað var 30. september 1998 og ber ábyrgð á tæknilegri stefnumörkun lénaheitakerfisins í samráði við viðeigandi aðila. Meðal annars á þessum grunni hafa ríki heims látið sig lénamál varða, í flestum tilvikum með setningu laga. Sum ríki hafa gengið svo langt að skýra eignarréttarlega aðkomu að landshöfuðléni viðkomandi ríkis og ábyrgð og hlut viðkomandi ríkisvalds að öðru leyti í tengslum við landshöfuðlén þess. Þannig hafa Danir t.d. sérstaklega kveðið á um eignarrétt danska ríkisins á landshöfuðléninu .dk. Í Noregi hafa stjórnvöld ekki tekið af skarið um eignarréttarlegar heimildir ríkisins til landshöfuðlénsins .no en af fyrirkomulagi lénaskráningar undir landshöfuðléninu má ráða að stjórnvöld fari með ráðstöfunar- og umráðarétt landshöfuðlénsins. Á vettvangi Evrópusambandsins var talið nauðsynlegt að kveða á um eignarrétt þess á landshöfuðléninu .eu.
    Í dag er ekki að finna heildstæða löggjöf hér á landi um landshöfuðlénið .is eða önnur landshöfuðlén með beina skírskotun til Íslands. Með vísan til þessa og framangreindrar umfjöllunar má segja að Ísland hafi dregist aftur úr í þróun lagasetningar á sviði lénaumsýslu og miðað við þróun erlendis og mikilvægi netsins í nútímasamfélagi er ærið tilefni til að setja lagalega umgjörð um landshöfuðlén sem hafa beina skírskotun til Íslands.

2.2. Nauðsyn lagasetningar.
    Skiptar skoðanir eru á nauðsyn þess að setja lög um lénamál hér á landi. Bent hefur verið á að fyrirtækið Internet á Íslandi hf., ISNIC, hafi sinnt verkefni sínu með ágætum, án teljandi vandræða og engin knýjandi nauðsyn sé á að setja lög.
    Frá sjónarhóli ríkisins lítur málið öðruvísi út. Netið er hluti mikilvægra innviða ríkisins. Bæði einstaklingar og lögaðilar treysta í meira mæli á netið og líklegt þykir að áhrif þess muni aukast í framtíðinni. Afar brýnt er að stuðla að stöðugleika í samfélaginu sé þess nokkur kostur og koma í veg fyrir aðstæður sem geta ógnað stöðugleika eða valdið tjóni.
    Öryggissjónarmið hafa mikið vægi við mat á nauðsyn á setningu laga um landshöfuðlén. Benda má á að fyrirtækið ISNIC sem heldur utan um íslenska landshöfuðlénið .is er að mestu í einkaeigu en ríkið og tengdir aðilar (Alþingi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands) fara aðeins með samtals 23,8% hlutafjár í fyrirtækinu. Eignarhlutir og stjórnir einkafyrirtækja geta tekið miklum breytingum á skömmum tíma og nauðsynlegt er að gera ráðstafanir sem tryggja að starfsemin sé með lögheimili hér á landi undir íslenskri lögsögu og að rétthafaskráin sé vistuð hér á landi en ekki úti í heimi, t.d. í svokölluðu skýi. Það er óviðunandi fyrir hagsmuni Íslands að íslensk stjórnvöld geti ekki komið í veg fyrir það að t.d. eignarhald skráningarstofu verði selt erlendum aðilum. Þess má geta að rekstur skráningarstofa annars staðar á Norðurlöndum er í öðru formi en hér á landi, aðallega í formi sjálfseignarstofnana.
    Mikilvægt er að íslensk yfirvöld hafi heimildir til að bregðast við utanaðkomandi ógnum, svo sem vegna hættu á hryðjuverkum eða vegna stríðsástands, sem varða íslensk landshöfuðlén en benda má á að Atlantshafsbandalagið hefur skilgreint netöryggi sem fjórðu vídd sameiginlegra varna bandalagsins ásamt vörnum í lofti, á láði og legi, sjá skýrslu þjóðaröryggisráðs frá október 2018.
    Þá er vert að minna á að landshöfuðlén getur haft talsverð áhrif á ímynd lands og þjóðar og því nauðsynlegt að stjórnvöld hafi úrræði til að bregðast við skráningum léna undir landshöfuðléninu sem hafa neikvæð áhrif á ímynd landsins.

2.3. Markmið lagasetningar.
    Markmið lagasetningar sem þessarar er að setja sanngjarnan ramma utan um starfsemi skráningarstofa sem hafa umsjón með landshöfuðlénum með beinni skírskotun til Íslands, tryggja að starfsemin sé innan íslenskrar lögsögu, hún sé örugg, gagnsæ og skilvirk og samrýmist íslenskum lögum.
    Þá er brýnt, eins og áður hefur verið lýst, að íslensk stjórnvöld hafi verkfæri til að grípa inn í lénaumsýslu hér á landi ef hættuástand skapast. Þá þurfa viðeigandi stjórnvöld að geta gripið inn í með aðgerðum, svo sem lokun, haldlagningu o.fl., ef lén sem skráð eru undir íslensku landshöfuðléni hafa tengsl við ólöglega starfsemi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Frumvarpið skiptist í fjóra kafla. Í I. kafla er gerð grein fyrir markmiðum þess og gildissviði, stjórn lénamála hér á landi, orðskýringum og persónuvernd.
    Lagt er til að markmið frumvarpsins verði að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og styrkja tengsl þeirra við Ísland með því að kveða á um örugga, gagnsæja og skilvirka umsýslu þeirra. Talsverð áhersla er lögð á öryggi í markmiðsákvæðinu enda eru öryggishagsmunir þeir hagsmunir sem helst hefur verið litið til við samningu þessa frumvarps. Það er brýnt að aðgangur að íslenskum landshöfuðlénum sé góður en einnig að umsýsla sé örugg án þess að vera samfélaginu til ama eða tafa.
    Gildissvið frumvarpsins afmarkast við rekstur landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað til notkunar á netinu, ásamt nafnaþjónustu fyrir landshöfuðlén og skráningu léna undir þeim höfuðlénum. Gildissviðið nær því ekki yfir almenn höfuðlén enda hafa íslensk stjórnvöld ekkert um þau að segja. Íslandi hefur verið úthlutað landshöfuðléninu .is en hugsanlegt er að fleiri landslénum verði úthlutað til Íslands í framtíðinni og því afmarkast gildissvið frumvarpsins ekki aðeins við landshöfuðlénið .is.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra fari með yfirumsjón með framkvæmd laga þessara, verði það að lögum.
    Í frumvarpinu er að finna 14 orðskýringar. Hægt er að skilgreina flest hugtök sem í frumvarpinu eru skýrð mun ítarlegar og á tæknilegri hátt. Sú leið var hins vegar valin að reyna að hafa orðskýringarnar almennar en þó nægilega ítarlegar til að þær dugi við túlkun einstakra ákvæða frumvarpsins og eftir atvikum reglugerða settra í kjölfar lagasetningar. Fjallað verður um einstakar orðskýringar í skýringum við einstaka greinar frumvarpsins eftir því sem þurfa þykir.
    Í frumvarpinu er að finna ákvæði um persónuvernd. Árið 2018 tóku gildi ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem byggð eru á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 frá 27. apríl 2016 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga og niðurfellingu tilskipunar 95/46/EB. Rétt er að hafa ákvæði í frumvarpi þessu sem heimilar vinnslu persónuupplýsinga. Er það meðal annars talið brýnt í ljósi heimilda skráningarstofa til að afskrá lén þar sem skráningarupplýsingar eru rangar. Þá er rétt að benda á að ný persónuverndarlöggjöf í Evrópu hefur leitt til þess að skráningarstofur í Evrópusambandinu hafa hætt að reka svokallaða þykka rétthafaskrá (e. Thick Whois) og reka þess í stað aðeins þunna rétthafaskrá (e. Thin Whois ), sjá nánar umfjöllun um rétthafaskrá í skýringum við 11. tölul. 4. gr.
    II. kafli fjallar um skráningarstofur, almenna heimild, tilkynningu um starfsemi og hlutverk þeirra. Lagt er til að starfsemi skráningarstofa verði tilkynningarskyld, svo sem áður hefur komið fram. Fyrri frumvörp um sama efni gerðu ráð fyrir því að starfsemin yrði leyfisskyld. Það að leyfisskylda starfsemi er mun meira íþyngjandi fyrir þá starfsemi sem fyrir er auk þess sem það felur í sér meiri umsvif ríkisins á málefnasviðinu og þar með meiri útgjöld. Með því að gera starfsemina tilkynningarskylda er hægt að hafa yfirsýn yfir þá starfsemi sem fer fram hér á landi þótt enn sem komið er sé aðeins ein skráningarstofa á landinu. Ekki er óhugsandi að Íslandi verði úthlutað fleiri landshöfuðlénum í framtíðinni og óvíst er hvort þau yrðu í umsjá núverandi skráningarstofu eða nýrrar skráningarstofu. Skilyrði sem sett eru fyrir starfseminni geta ekki talist íþyngjandi en sum þeirra taka mið af öryggishagsmunum, svo sem að halda starfseminni hér á landi og koma í veg fyrir að rétthafaskrá og vinnsla hennar verði vistuð í skýi eða í gagnaveri erlendis. Gert er ráð fyrir að tilkynna skuli starfsemina til Póst- og fjarskiptastofnunar bæði við upphaf rekstrar og við niðurlagningu starfseminnar. Þá er gerð grein fyrir hlutverki skráningarstofu en lýsing ákvæðisins miðast við það hlutverk sem Internet á Íslandi hf., ISNIC, hefur nú.
    Í III. kafla er að finna ákvæði um skráningu léna, lokun, læsingu og afskráningu þeirra, úrræði lögreglu og réttindi og skyldur rétthafa. Ekki eru lagðar til breytingar á reglum um skráningu léna frá því sem nú er. Skráningin er rafræn og sjálfvirk að mestu leyti. Skráningarstofur setja sjálfar reglur um skráningu léna og ekki er gert ráð fyrir breytingu á því. Ráðherra verður hins vegar heimilt að setja í reglugerð viðmið sem hafa skuli við samningu reglna skráningarstofa. Ráðherra setur með öðrum orðum ekki efnisreglur um skráninguna enda gilda nokkuð fastmótaðar alþjóðlegar efnisreglur um skráningu léna.
    Í 10. og 11. gr. frumvarpsins er að finna reglur sem varða úrræði eins og að loka skráðu léni, afskrá það, læsa því eða leggja hald á það. Í 10. gr. er að finna reglur sem eru í samræmi við reglur Internet á Íslandi hf., ISNIC, en rétt þykir að setja í lög. Rétt er að vekja athygli á því úrræði að læsa léni en í því felst að ekki er hægt að flytja lén á milli rétthafa. Úrræði sem þetta hefur nýst og nýtist t.d. þegar mál er til meðferðar hjá Neytendastofu, t.d. á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005.
    Í 11. gr. eru lögð til úrræði handa lögreglu. Lagt er til að lögregla geti krafist þess, að undangengnum dómsúrskurði, að skráningarstofa loki léni sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni í ákveðnum tilvikum sem frekar verður gerð grein fyrir í skýringum við einstaka greinar. Þá er lagt til að lögregla geti, að undangengnum dómsúrskurði, lagt hald á skráð lén og rekið lénið í tengslum við rannsókn opinbers máls og öflun sönnunargagna. Framangreindar heimildir eru mjög íþyngjandi fyrir rétthafa og fela í sér mikið inngrip og því er lagt til að ávallt sé leitað atbeina dómstóla til að beita úrræðunum. Loks er lagt til skaðleysisákvæði fyrir starfsmenn skráningarstofu vegna athafna lögreglu samkvæmt ákvæðinu en aðkoma starfsmanna skráningarstofu er nauðsynleg í öllum tilvikum.
    Þá er kveðið á um réttindi og skyldur rétthafa léna. Ljóst er að rétthafi eignast ekki beinan eignarrétt að léni heldur einungis óbeinan eignarrétt (takmörkuð eignarréttindi), nánar tiltekið það sem kallað er einkaafnotarétt af léni. Á þessu tvennu er stór munur. Einnig eru talin upp þau atriði sem rétthafi ber ábyrgð á.
    Í IV. og síðasta kafla er að finna ýmis ákvæði, svo sem um eftirlit, dagsektir, rekstur landshöfuðléns á stríðstímum og vegna yfirvofandi hryðjuverkaárásar, fagráð o.fl. Gert er ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun sinni eftirliti með því að skráningarstofa uppfylli skilyrði sem starfseminni eru sett samkvæmt tillögum í frumvarpi þessu. Umfangi eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar er lýst í 2. mgr. 13. gr. en þar kemur fram að stofnunin skuli a.m.k. einu sinni á tveggja ára fresti óska eftir upplýsingum frá skráðum skráningarstofum til að kanna hvort þær uppfylli skilyrði 6. og 8. gr. og gildir skilafrestur sem um er getið í 7. gr. Ekki er gert ráð fyrir að fulltrúar stofnunarinnar fari á starfstöð skráningaraðila og geri úttektir, t.d. til að staðfesta efni upplýsinga sem skráningarstofa sendir til stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að hver skráningarstofa muni taka saman upplýsingar sem sýni fram á að hún uppfylli þau skilyrði sem getið er um í 6. og 8. gr. Skilyrði 6. gr. verður að teljast einfalt að uppfylla og sýna fram á og ekki ætti að vera teljandi vandræði fyrir núverandi skráningarstofu að sýna fram á að skilyrði 8. gr. séu uppfyllt.
    Í frumvarpinu er að finna ákvæði um rekstur landshöfuðléns á stríðstímum og við aðstæður þegar hryðjuverkaárás er yfirvofandi. Um er að ræða það sem kallað er „force majeure“-ákvæði. Ákvæðið er að nokkru í samræmi við sænskt lagaákvæði um sama efni en ekki ósvipað ákvæði er að finna í 72. gr. fjarskiptalaga, nr. 81/2003. Ákvæðið heimilar stjórnvöldum að grípa inn í rekstur landshöfuðléna komi til stríðsátaka eða landið verði fyrir hryðjuverkaárás eða hún yfirvofandi.
    Þá er lagt til í frumvarpinu að fjarskiptaráð skuli fjalla um lénamál og vera ráðherra til ráðgjafar um slík mál.
    Í ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að ríkissjóður eigi forkaupsrétt að öllum hlutum í félaginu Internet á Íslandi hf., ISNIC, kt. 660595–2449. Þetta ákvæði er sett inn fyrst og fremst til að tryggja að félagið verði ekki selt út úr íslenskri lögsögu en þó er gert ráð fyrir að ríkissjóður geti beitt forkaupsrétti í þeim tilvikum að innlent félag kaupi hlut í ISNIC.
    Vakin er athygli á því að ekki er gert ráð fyrir að ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt tillögum í frumvarpinu séu kæranlegar til æðra stjórnvalds. Gert er ráð fyrir að ákvörðun er varðar dagsektir sé hægt að bera undir dómstóla ef þannig ber undir og frestast réttaráhrif ákvörðunarinnar í kjölfarið. Ákvarðanir skráningarstofu er ekki hægt að bera undir aðra en dómstóla enda er skráningarstofa ekki stjórnvald. Þá heyra ýmis álitaefni undir önnur stjórnvöld, t.d. Persónuvernd og Neytendastofu.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Við samningu frumvarpsins kom til skoðunar hvort ákvæði þess færu í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Einkum var skoðað hvort 11. gr. frumvarpsins sem kveður á um heimild lögreglu, að undangengnum dómsúrskurði, að láta loka og eða haldleggja lén, færi í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um tjáningarfrelsi og hvort ákvæði til bráðabirgða I, sem kveður á um heimild ríkisins til að eiga forkaupsrétt á öllum hlutum í fyrirtækinu Internet á Íslands hf., ISNIC, færi í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður á um friðhelgi eignarréttarins.
    Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. sömu greinar er meðal annars kveðið á um það að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um hvenær heimilt er að setja tjáningarfrelsinu skorður. Þar kemur fram að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.
    Í 11. gr. frumvarpsins er lagt til að lögreglu verði heimilt að grípa til ákveðinna úrræða sem hafa í för með sér skerðingu á tjáningarfrelsi. Ákvæðið er sett í þágu allsherjarreglu og öryggis ríkisins en hefur einnig það markmið að vernda heilsu manna. Fram kemur í skýringum við ákvæðið að meðalhófsreglan gildi eftir sem áður við beitingu úrræðisins enda ber stjórnvöldum ekki að grípa til þessa úrræðis ef önnur og vægari úrræði eru fyrir hendi. Þá er það gert að skilyrði að leitað sé úrskurðar dómstóla áður en úrræðinu er beitt. Þannig fer hlutlaus aðili yfir beiðni lögreglunnar og metur hvort skilyrði eru fyrir beitingu úrræðisins. Það er mat ráðuneytisins að þau tilvik sem getið er í a- og b-lið 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins séu svo skýr og vel afmörkuð að það eigi ekki að leika vafi á því til hvaða aðstæðna þau taka. Þannig er það mat ráðuneytisins að ekki sé hægt að misnota ákvæðið t.d. til að takmarka lögmætan fréttaflutning af skipulagðri brotastarfsemi eða afbrotum yfir höfuð. Það er því mat ráðuneytisins að ákvæði 11. gr. frumvarpsins standist kröfur 73. gr. stjórnarskrárinnar.
    Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Lagafyrirmæli þurfi til og fullt verð að koma fyrir.
    Ráðuneytið bendir á að í ákvæði til bráðabirgða I er lagt til að ríkissjóður fái forkaupsrétt að öllum hlutum í tilteknu fyrirtæki. Að baki þessu ákvæði liggja öryggishagsmunir. Ekki er verið að krefjast eignarnáms heldur aðeins þess að ríkið geti gengið inn í samþykkt tilboð sem hluthafar hafa fengið í hluti sína. Til skoðunar kom að setja eignarnámsheimild í frumvarpið en fallið var frá því með hliðsjón af meðalhófssjónarmiðum. Ráðuneytið telur að ákvæðið standist kröfur 72. gr. stjórnarskrárinnar, en að öðru leyti er vísað til athugasemda við sjálft ákvæðið.

5. Samráð.
    Ráðuneytið átti samráðsfundi með Internet á Íslandi hf., ISNIC, Samtökum iðnaðarins, Neytendastofu og Póst- og fjarskiptastofnun um frumvarpið. Áform um frumvarpssmíðina voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-156/2019) á tímabilinu 27. júní til 20. júlí 2019 og bárust sex umsagnir. Frumvarpsdrög voru einnig birt í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-214/2019) á tímabilinu 30. ágúst til 16. september 2019. Í samráðsgáttina bárust þrjár umsagnir, frá Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins og einum einstaklingi. Loks barst ráðuneytinu umsögn frá Persónuvernd, Hugverkastofnun sem og einum hluthafa Internets á Íslandi hf., ISNIC.
    Neytendastofa gerði athugasemd við 3. mgr. 10. gr. og taldi að betur færi á því að aðilar máls hefðu heimild til að óska eftir því að léni yrði læst en ekki stjórnvald. Fallist var á rök Neytendastofu og ákvæðinu breytt til samræmis við athugasemd stofnunarinnar.
    Samtök atvinnulífsins gerðu í fyrsta lagi athugasemd við það að í g-lið 2. mgr. 6. gr. væri gerð sú krafa til framkvæmdastjóra og meiri hluta stjórnarmanna að þeir hefðu lögheimili hér á landi og töldu samtökin að um of íþyngjandi skilyrði væri að ræða auk þess sem það færi í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ráðuneytið féllst á ábendingu samtakanna og felldi g-lið 2. mgr. brott. Í öðru lagi gerðu Samtök atvinnulífsins athugasemd við að ákvæði 12. gr. um réttindi og skyldur rétthafa léna væri ekki nógu skýr. Bent var á að frumvarpið yrði að innihalda ákvæði þar sem tekin væru af öll tvímæli um rétt þeirra sem eiga skráð vörumerki til sambærilegra léna og að öðrum væri óheimilt að skrá slík lén. Ráðuneytið taldi ekki ástæðu til að breyta 12. gr. frumvarpsins þar sem frumvarpið fjallar ekki um vörumerkjarétt. Í þriðja lagi gerðu Samtök atvinnulífsins athugasemd við 13. gr. frumvarpsins að því leyti að ekki kæmi fram hvert almenningur og lögaðilar skyldu leita með ágreining. Ráðuneytið bendir á að ekki sé gert ráð fyrir að leitað sé til Póst- og fjarskiptastofnunar með ágreining vegna laganna, verði frumvarpið að lögum. Ágreiningur sem upp kann að koma vegna léna er í föstum farvegi. Frumvarp þetta á ekki að fara inn á svið Neytendastofu, Persónuverndar eða annarra aðila. Eftirlitið er haft í lágmarki og snýr aðeins að skráningarstofunni. Í fjórða lagi gerðu Samtök atvinnulífsins athugasemdir við forkaupsréttarákvæði frumvarpsins. Bent var á að af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, mætti leiða ólögfesta stjórnskipunarreglu um almennar takmarkanir. Samkvæmt henni þyrftu allar takmarkanir á eignarrétti að eiga stoð í lögum og vera grundvallaðar á almannahagsmunum. Ráðuneytið bendir á, svo sem fram hefur komið, að þjónusta sú sem skráningarstofa veitir sé hluti af mikilvægum innviðum landsins, sbr. lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019, sem tóku gildi 1. september 2020. Ákvæðið styðst því við öryggis- og almannahagsmuni. Þá er gætt meðalhófs við útfærsluna enda er forkaupsréttur talsvert mildara úrræði en t.d. eignarnámsheimild.
    Þá sendi einn einstaklingur inn athugasemd við 11. gr. frumvarpsins. Taldi hann ákvæðið vera of rúmt og lagði til að það yrði þrengt ef nauðsynlegt væri að hafa ákvæðið í frumvarpinu en ákvæðið gæti leitt til valdníðslu og takmarkað tjáningarfrelsið. Ráðuneytið bendir á að ákvæðinu er ekki ætlað að hafa áhrif á tjáningarfrelsi og því hefur umfjöllun um 11. gr. verið aukin í ljósi athugasemdarinnar.
    Persónuvernd gerði athugasemd við að ekki væri skýrt í hvaða tilgangi verið væri að afla persónuupplýsinga samkvæmt frumvarpinu. Vegna athugasemdar Persónuverndar voru gerðar breytingar á 8. gr. og tveimur málsgreinum bætt við það ákvæði.
    Í umsögn eins hluthafa í Interneti á Íslandi hf., ISNIC, er gerð athugasemd við forkaupsréttarákvæði frumvarpsins. Hann telur að ákvæðið muni rýra virði félagsins og draga úr áhuga almennra fjárfesta á hlutum félagsins. Þá muni þetta stuðla að fækkun hluthafa í félaginu. Ekki var talin ástæða til að taka ákvæðið út úr frumvarpinu.
    Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis fékk fimm umsagnir um frumvarpið á 150. löggjafarþingi. Umsagnir bárust frá Internet á Íslandi hf., ISNIC, tveimur einstaklingum sem skiluðu umsögn saman, Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun og Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins sem skiluðu saman umsögn.
    Ráðuneytið sá ástæðu til að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu fyrir endurframlagningu þess í ljósi umsagna sem bárust umhverfis- og samgöngunefnd. Komið var til móts við athugasemdir ISNIC að mestu leyti að undanskildri kröfunni um að taka út forkaupsréttarákvæði. Sama gilti um kröfu einstaklinganna og Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins er varðar forkaupsréttarákvæði frumvarpsins. Ráðuneytið taldi umsögn Persónuverndar ekki kalla á viðbrögð en rétt að taka tillit til umsagnar Póst- og fjarskiptastofnunar að hluta til. Ráðuneytið bætti málsgrein við 12. gr. frumvarpsins til að koma til móts við ábendingar Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá er það mat ráðuneytisins að komið hafi verið til móts við umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins að hluta til með nýrri málsgrein í 12. gr. Ráðuneytið taldi ekki tilefni til að bregðast við öðrum athugasemdum þessara aðila.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið varðar helst skráningarstofur. Þau skilyrði sem sett eru skráningarstofum geta ekki talist íþyngjandi og áhrif á núverandi skráningarstofu hverfandi. Verði frumvarpið að lögum munu lögregluyfirvöld fá heimild til að bregðast við ef lén hefur t.d. tengsl við skipulagða brotastarfsemi.
    Aðeins ein skráningarstofa er nú starfandi og reikna má með að vinnuframlag sem samsvarar einum til tveimur vinnudögum eins starfsmanns Póst- og fjarskiptastofnunar á ári fari í eftirlit samkvæmt frumvarpinu verði það óbreytt að lögum, að teknu tilliti til mála vegna dagsektarákvarðana skv. 14. gr. Kostnaður hins opinbera vegna eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar vegna frumvarpsins verður því að teljast óverulegur. Hins vegar kann að falla kostnaður á Póst- og fjarskiptastofnun vegna eftirlits stofnunarinnar með skráningarstofum á grundvelli annarra laga, svo sem laga um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða, nr. 78/2019, en um það eftirlit er ekki fjallað hér. Eftirlitsskyldur Póst- og fjarskiptastofnunar samkvæmt frumvarpinu verða í algjöru lágmarki og því hefur frumvarpið ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í 1. gr. er gerð grein fyrir markmiðum frumvarpsins. Byggt er á því að hlutverk stjórnvalda í lýðræðisþjóðfélögum sé að stuðla svo sem kostur er að því að innviðir samfélagsins séu þannig að þjóðfélagið starfi sem best. Netið hefur eðli málsins samkvæmt mikil áhrif á starfsemi innviða hér á landi, atvinnulíf og síðast en ekki síst daglegt líf almennings. Þessi áhrif eiga enn eftir að aukast. Þá geta vefir auðkenndir með landshöfuðléninu .is haft áhrif á ímynd lands og þjóðar. Þannig er brýnt að við markmiðssetningu sé litið til sjónarmiða um öryggi og skilvirkni sem meðal annars stuðla að því að takmarka rekstrartruflanir.
    Með 1. gr. frumvarpsins er því lagt til að markmið þess verði að stuðla að öruggum, hagkvæmum og skilvirkum aðgangi að íslenskum landshöfuðlénum og að tryggja tengsl þeirra við Ísland. Þannig á frumvarpið að stuðla að öruggri, gagnsærri og skilvirkri umsýslu með landshöfuðlén með tengsl við Ísland.

Um 2. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um gildissvið. Er að nokkru byggt á 1. gr. sænskra laga um sama efni (lag (2006:24) om nationella toppdomäner för Sverige på internet).
    Lagt er til að frumvarpið gildi um rekstur landshöfuðléna sem Íslandi hefur verið úthlutað til notkunar á netinu ásamt nafnaþjónustu fyrir höfuðlén og skráningu léna undir þeim.
    Í dag hefur Íslandi verið úthlutað einu landshöfuðléni (e. Country Code Top Level Domain, ccTLD), landshöfuðléninu .is. Ekki er hægt að útiloka að önnur landshöfuðlén með tengsl við Ísland verði samþykkt í framtíðinni og því var talið rétt að láta frumvarpið ekki eingöngu gilda um landshöfuðlénið .is heldur einnig ná yfir önnur landshöfuðlén með tengsl við Ísland sem kunna að verða til í framtíðinni. Í dag fer Internet á Íslandi hf., ISNIC, með skráningu, rekstur og stjórnun landshöfuðlénsins.
    Þá er í 2. mgr. gert ráð fyrir að lögin gildi um höfuðlénið .eu, sbr. 17. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/517 um að taka í notkun höfuðlénið .eu og hlutverk þess og um breytingu og niðurfellingu á reglugerð (EB) nr. 733/2002 og niðurfellingu á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 874/2004 verði innleidd með reglugerð. Lagastoð fyrir forvera reglugerðar þessarar var almenn reglugerðarheimild í fjarskiptalögum en ráðuneytið telur betur fara á að hafa lagaheimildina í lögum um landshöfuðlén.

Um 3. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að ráðherra hafi yfirumsjón með framkvæmd laga þessara, verði frumvarpið að lögum, og að Póst- og fjarskiptastofnun sinni eftirliti skv. 13. gr. frumvarpsins. Algengt er að lög kveði á um að ráðherra fari með yfirstjórn ýmissa mála, t.d. fjarskiptamála. Ekki þótti rétt að kveða á um að ráðherra færi með yfirstjórn lénamála þar sem það þótti helst til of rúmt en auk þess fer íslenska ríkið ekki með yfirráð yfir lénum almennt. Þá var ekki heldur talið rétt að kveða á um að ráðherra færi með yfirstjórn yfir íslenskum landshöfuðlénum í ljósi þess að íslenska ríkið hefur ekki fullt forræði á því hvort landshöfuðlén fyrir Ísland sé .is eða eitthvað annað. Því var talið réttast að leggja til að ráðherra færi með yfirumsjón með framkvæmd laganna. Lagt er til að Póst- og fjarskiptastofnun sinni eftirliti með því að skráningarstofa uppfylli skilyrði fyrir starfseminni verði frumvarpið að lögum. Ákvæðið þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 4. gr.

    Í ákvæðinu eru lagðar til skýringar á hugtökum sem notuð eru í frumvarpinu, reglugerðum og reglum sem fyrirhugað er að setja á grundvelli þess.
     Um 1. tölul.
    Almennt höfuðlén
er skilgreint sem höfuðlén sem ekki hefur verið úthlutað til ríkis eða landsvæðis. Dæmi um almennt höfuðlén er .com, .edu, .net o.s.frv.
     Um 2. tölul.
    Hugtakið almennt IP-fjarskiptanet er skilgreint sem það sem samkvæmt almennri málnotkun er nefnt netið. Það skal hér tekið fram að ekki er átt við önnur IP-net, svo sem fyrir síma, sjónvarp o.fl.
     Um 3. tölul.
    Hugtakið höfuðlén er skilgreint sem efsti hluti lénakerfisins sem vísar til þess hluta sem kemur á eftir síðasta punktinum í heiti léns og er samþykktur af þar til bærum alþjóðlegum aðila. Höfuðlén skiptast í landshöfuðlén og almenn höfuðlén. Með þar til bærum alþjóðlegum aðila er átt við bandaríska fyrirtækið ICANN og fyrirtæki tengd því.
     Um 4. tölul.
    Hugtakið IP-fjarskiptanet þarfnast ekki skýringa.
     Um 5. tölul.
    Hugtakið IP-tala þarfnast ekki skýringa.
     Um 6. tölul.
    Hugtakið íslenskt landshöfuðlén þarfnast ekki skýringa.
     Um 7. tölul.
    Hugtakið landshöfuðlén er skilgreint sem þau höfuðlén sem hafa beina skírskotun til ríkja. Landshöfuðlén lúta ISO 31661-staðlinum en dæmi um landshöfuðlén eru .dk, .uk, .jp, o.fl.
     Um 8. tölul.
    Lén
er skilgreint sem auðkenni í almennum IP-fjarskiptanetum. IP-tala er að baki hvers léns. Orðið lén er notað yfir umdæmi á netinu.
     Um 9. tölul.
    Hugtakið lénaheitakerfi (e. domain name system , DNS) er skilgreint sem stigskipt dreift gagnasafn sem annast fyrirspurnir um lénaheiti. Megintilgangur kerfisins er að varpa nöfnum innan léns yfir á IP-tölur svo að hægt sé að sækja þjónustu sem boðið er upp á innan lénsins, t.d. vef, tölvupóst, síma, skráageymslu o.s.frv., eftir nafni í stað IP-tölu.
     Um 10. tölul.
    Hugtakið nafnaþjónn er skilgreint sem tölva sem svarar fyrirspurnum um lén. Í raun eru nafnaþjónar margs konar. Nafnaþjónar sem flestar skráningarstofur nota og stjórna eru það sem kalla mætti upprunanafnaþjóna (e. authoritative name server) og geyma þeir DNS-færslu fyrir hvert lén. Á ensku er lýsingin á slíkum nafnaþjóni eftirfarandi: „An authoritative Nameserver is a nameserver (DNS Server) that holds the actual DNS records (A, CNAME, PTR, etc.) for particular domain/address.“ Allir aðrir nafnaþjónar eru svokallaðir uppflettinafnaþjónar (e. resolver) og eru þeir nafnaþjónar notaðir hjá hýsingaraðilum eða netfyrirtækjum. Um er að ræða hugbúnað sem sækir upplýsingarnar í upprunanafnaþjón, t.d. til Internets á Íslandi hf., ISNIC, um .is lén, og geymir tímabundið og getur þá svarað tímabundið hvar lén er hýst. Ef hann á upplýsingarnar ekki til, eða vill ekki geyma þær, þá beinir hann fyrirspurninni sjálfvirkt áfram t.d. til Internets á Íslandi hf., ISNIC, á augabragði. Ensk skilgreining er svohljóðandi: „A recursive resolver would be a DNS server that queries an authoritative name server to resolve a domain/address.“
     Um 11. tölul.
    Hugtakið rétthafaskrá er skilgreint sem miðlæg skrá þar sem fram koma upplýsingar um rétthafa léna, tengiliði þeirra og nafnaþjóna. Almennt er talað um að skráningarstofur bjóði upp á þykka eða þunna rétthafaskrá. Þykk rétthafaskrá inniheldur allar uppgefnar upplýsingar um lénið, en þunn aðeins hluta nauðsynlegra upplýsinga, svo sem nafn skráningaraðila, en ekki rétthafaupplýsingar sem liggja þá hjá skráningaraðila en ekki skráningarstofu. Í frumvarpinu er með rétthafaskrá átt við þykka rétthafaskrá.
     Um 12. tölul.
    Hugtakið rétthafi þarfnast ekki skýringa.
     Um 13. tölul.
    Hugtakið skráningaraðili (e. registrar) er skilgreint sem aðili sem á grundvelli samnings við skráningarstofu getur séð um skráningu léna undir íslensku höfuðléni og breytingar á upplýsingum sem tengjast því fyrir hönd rétthafa léna. Skráningaraðilar eru þannig milliliðir milli skráningarstofu og rétthafa en rétthafa er í sjálfsvald sett hvort hann skiptir beint við skráningarstofu eða í gegnum millilið.
     Um 14. tölul.
    Hugtakið skráningarstofa (e. top-level domain name registry, TLD registry). Skráningarstofa höfuðléna er aðili sem annast og vinnur að skráningu léna undir landshöfuðléni tengdu Íslandi og fer með umsýslu þess á grundvelli almennrar heimildar.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er lögð til heimild til vinnslu persónuupplýsinga. Gert er ráð fyrir að vinnsla persónuupplýsinga takmarkist við upplýsingar sem flokkast sem tengiupplýsingar. Er hér um að ræða upplýsingar á borð við nafn, heimilisfang, kennitölu o.s.frv. Gerð er sú krafa að vinnslan sé í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með öðrum þeim sem starfa í umboði skráningarstofu er meðal annars átt við aðila sem uppfylla lágmarkskröfur um hýsingu .is léna. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er lagt til að í stað þess að sótt sé um formlegt leyfi til að starfa sem skráningarstofa hér á landi þurfi almenna heimild. Um er að ræða mildara form en starfsleyfi. Þannig getur lögaðili hafið starfsemi áður en hann tilkynnir yfirvöldum um starfsemina og skilyrði til starfseminnar eru almennt minna íþyngjandi en ef um formlegt leyfi væri um að ræða. Ekki er gert ráð fyrir því að lögaðilinn verði sviptur réttindum til að starfa sem skráningarstofa ef annmarkar eru á tilkynningu heldur er gert ráð fyrir að heimilt verði að leggja dagsektir á lögaðilann þar til bætt er úr annmörkum.
    Gert er að ráð fyrir að lögaðili sem hyggst starfa sem skráningarstofa þurfi að uppfylla ákveðin almenn skilyrði og tilkynna starfsemi sína til viðeigandi stjórnvalds. Skilyrðin sem lögð eru til í frumvarpi þessu eru í fyrsta lagi að almennir viðskiptaskilmálar og gjaldskrár séu aðgengilegar á vef. Skilyrði þetta er sett á grundvelli neytendasjónarmiða. Í öðru lagi skal uppfylla þau skilyrði sem lögð eru til með frumvarpinu. Skilyrði þetta þarfnast ekki skýringa. Þá er gert ráð fyrir að í þriðja lagi þurfi lögheimili lögaðilans að vera á Íslandi. Í fjórða lagi þarf rétthafaskrá og vinnsla hennar að vera hér á landi. Skilyrðið er sett á grundvelli öryggissjónarmiða og til að koma í veg fyrir að skráin sé vistuð á stað þar sem aðrar reglur gilda en íslenskar. Gildir einu hvort um er að ræða ský eða gagnaver erlendis. Þetta er gert svo að fyrirtækið sé undir íslenskri lögsögu. Þá er í fimmta lagi gert ráð fyrir því að ársreikningar skráningarstofu séu gerðir í samræmi við lög um bókhald og lög um ársreikninga og sendir Póst- og fjarskiptastofnun í heild sinni. Eðli málsins samkvæmt þurfa ársreikningar að vera í samræmi við landslög. Nauðsynlegt er að Póst- og fjarskiptastofnun fái afrit af þeim til að geta sinnt skyldum sínum skv. 13. gr. frumvarpsins. í sjötta lagi eru sett fram skilyrði um hæfi framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lögaðilans.

Um 7. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að skráningarstofa skuli tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun um starfsemi sína innan átta vikna frá því að hún hóf starfsemi. Telja verður átta vikur hæfilegan frest til að senda inn tilkynningu.
    Í 2. mgr. er fjallað um innihald tilkynningar. Almennt er gert ráð fyrir að í tilkynningu sé að finna upplýsingar sem nauðsynlegar eru til skráningar. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um form og efni tilkynningar. Ekki er gert ráð fyrir að tilkynningar sem þessar verði flóknar heldur þannig að í þeim komi fram upplýsingar um að viðkomandi aðili uppfylli skilyrði laganna og nauðsynlegar tengiupplýsingar.
    Í 3. mgr. er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun skuli staðfesta skráningu aðila á skrá yfir skráningarstofur innan fjögurra vikna frá móttöku tilkynningar samkvæmt ákvæðinu, enda sé það mat stofnunarinnar að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Í þessu felst að fjögurra vikna fresturinn byrjar ekki að líða fyrr en fullnægjandi gögn hafa borist stofnuninni. Þá er gert ráð fyrir að í samræmi við góða stjórnsýsluhætti muni Póst- og fjarskiptastofnun veita sendanda tilkynningar færi á að bæta úr annmörkum á tilkynningu innan hæfilegs frests áður en þvingunarúrræðum verður beitt.
    Í 4. mgr. er lagt til að ef skráningarstofa hyggst leggja niður starfsemi í heild eða að hluta skuli tilkynna það með minnst 12 vikna fyrirvara.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. er lagt til að kveðið verði á um hlutverk skráningarstofu. Starfsemi skráningarstofu hér á landi er ekki ný af nálinni en fyrirtækið Internet á Íslandi hf., ISNIC, gegnir nú eitt því hlutverki. Við samningu frumvarpsins var álitamál hvort nota ætti hugtakið skráningarstofa, skráningarfyrirtæki eða stjórnandi landshöfuðléns. Það var mat ráðuneytisins að réttast væri að nota orðið skráningarstofa yfir starfsemi Internets á Íslandi, ISNIC. Það er almennara hugtak en t.d. stjórnandi landshöfuðléns og jafnframt í samræmi við ýmis grunnskjöl, t.d. RFC 1591, sem er grundvallarskjal á þessu sviði.
    Lagt er til í 1. mgr. að skráningarstofa fari með daglega umsjón landshöfuðléna. Sérstaklega er getið að skráningarstofa skuli framkvæma skyldur sínar á öruggan og skilvirkan máta í þágu almannahagsmuna. Er hér meðal annars átt við að skráningarstofa þurfi að líta til hagsmuna heildarinnar, almenningsheilla, í störfum sínum og framfylgja lögmætum markmiðum enda er netið hluti af mikilvægum innviðum í nútímasamfélögum.
    Í a–h-lið 2. mgr. eru talin upp hlutverk skráningarstofu en ekki er um tæmandi upptalningu að ræða. Um er að ræða hlutverk sem eru vel til þess fallin að styðja við markmiðsákvæði frumvarpsins.
    Í 3. mgr. er kveðið á um í hvaða tilgangi heimilt er að skrá upplýsingar í rétthafaskrá og er málsgreinin tilkomin vegna athugasemda Persónuverndar. Nauðsynlegt getur verið að sannreyna réttmæti skráningar, t.d. með því að biðja um afrit af skilríkjum. Þá verða t.d. innlendir rétthafar að gefa upp kennitölu, þ.e. ef þeir eru jafnframt greiðendur, en að öðrum kosti er ekki hægt að birta þeim greiðsluseðil í innlendum banka. Loks getur verið nauðsynlegt að gefa upp símanúmer ef notandi vill geta fengið innskráningarkóða sendan í símanúmer í stað netfangs.

Um 9. gr.

    Í 1. mgr. kemur meðal annars fram að skráning léna skuli vera stafræn svo sem verið hefur.
    Í 2. mgr. er lagt til að skráningarstofan setji sér reglur um skráningu léna. Einnig er lagt til að ráðherra geti sett reglur um þau viðmið sem unnið skuli út frá við setningu reglnanna. Um heimildarákvæði er að ræða. Með öðrum orðum er ekki gert ráð fyrir að ráðherra setji efnisreglur heldur sé heimilt að kveða á um sjónarmið sem fara skuli eftir við setningu reglna, svo sem jafnræðissjónarmið o.fl. Þá er ekki gert ráð fyrir að ráðherra eða Póst- og fjarskiptastofnun fari yfir reglurnar eða staðfesti þær.
    Í 3. mgr. er að finna ákvæði um skyldu skráningarstofu til að stuðla að því að rétthafar léna séu upplýstir um skilyrði skráningar léna samkvæmt frumvarpi þessu. Þá er innbyggð meðalhófsregla í ákvæðinu þar sem gefa á rétthafa færi á að bæta úr annmörkum. Sé ekki bætt úr annmörkum er gert ráð fyrir að skráningarstofa geti fjarlægt tilvísanir léna úr nafnaþjónum landshöfuðlénsins.
    Þá er þess sérstaklega getið að skráningarstofu sé heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem hún veitir.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. er að finna reglur um heimildir sem núverandi skráningaraðili hér á landi hefur en rétt þykir að festa heimildirnar í lög.
    Í 2. mgr. er að finna meðalhófsreglu um að skora skuli á rétthafa léns að gera úrbætur áður en úrræðum 1. mgr. er beitt.
    Í 3. mgr. er lagt til að lögfesta úrræði sem einnig hefur verið beitt hér á landi en það er að læsa léni. Þegar léni hefur verið læst er ekki hægt að færa það á milli rétthafa, t.d. selja til þriðja aðila áður en formleg deila hefst. Þessu hefur verið beitt þegar mál er til meðferðar hjá Neytendastofu, dómstólum og úrskurðarnefnd ISNIC. Ekki er útilokað að þetta úrræði yrði notað ef önnur stjórnvöld, t.d. Persónuvernd, fengju kvörtun út af léni. Lagt er til að skráningarstofu verði heimilt að læsa léni undir íslensku landshöfuðléni að tilteknum skilyrðum uppfylltum og er ákvæðið í samræmi við 27. gr. reglna Internets á Íslandi hf., ISNIC. Gert er ráð fyrir því að læsing geti átt sér stað án vitundar rétthafans. Þá er einnig gert ráð fyrir því að ekki sé eingöngu skilyrði að mál sé til meðferðar fyrir dómstólum eða öðrum stjórnvöldum heldur einnig ef sýnt er fram á að fyrirhugað sé að leggja mál fyrir dóm, úrskurðarnefnd eða stjórnvöld. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra geti í reglugerð útfært læsingu léna nánar, t.d. hvaða sjónarmið skráningarstofa skuli leggja til grundvallar við mat á því hvort tilefni sé til að læsa léni, frá hverjum beiðni um læsingu kemur o.fl. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um skaðabótarétt ef t.d. léni er læst án gildra ástæðu en um það gilda almennar reglur skaðabótaréttar.
    Í 4. mgr. er lagt til að skráningarstofu verði skylt að afskrá lén undir íslensku landshöfuðléni eða loka léni sé það ólögmætt samkvæmt niðurstöðu dómstóls eða endanlegum úrskurði stjórnvalds eða skráningarstofu hér á landi. Í ákvæðinu er afdráttarlaust lagt til að skráningarstofu verði skylt að hlíta niðurstöðu dómstóls eða endanlegum úrskurði stjórnvalds um lögmæti léns og afskrá, eða loka því. Þannig á einstaklingur eða lögaðili að geta leitað til dómstóla eða þar til bærra stjórnvalda á því sviði með úrlausnarefni sem umræddur ágreiningur heyrir undir um t.d. lögmæti léns. Ákvæðið er ekki bundið við dóma íslenskra dómstóla enda geta sum mál verið rekin annars staðar en á Íslandi samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar. Með stjórnvöldum er þó aðeins átt við íslensk stjórnvöld. Málsgreinina var ekki að finna í því frumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi á 150. löggjafarþingi.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að lögregla geti krafist að undangengnum dómsúrskurði að skráningarstofa loki léni sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni í tilvikum sem lýst er í a- og b-lið 1. mgr.
    Skv. a-lið 1. mgr. er hægt að beita úrræðinu ef rétthafi léns, umboðsmaður hans eða þjónustuaðili hefur náin tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða nýtir lénið í þágu starfsemi eins og sú starfsemi er skilgreind í almennum hegningarlögum. Skipulögð brotasamtök eru skilgreind í 2. mgr. 175. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þannig að átt er við „félagsskap þriggja eða fleiri manna sem hefur það að meginmarkmiði, beint eða óbeint í ávinningsskyni, að fremja með skipulegum hætti refsiverðan verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, eða þegar verulegur þáttur í starfseminni felst í því að fremja slíkan verknað.“ Hér getur verið um að ræða tilvik þar sem rétthafi léns flokkast undir þekkt brotasamtök líkt og ISIS. Dæmi er um að svona tilvik hafi komið upp hér á landi og var þá léninu lokað af skráningarstofu þar sem formskilyrðum skráningar var áfátt. Það er mat ráðuneytisins að nauðsynlegt sé að hafa heimild fyrir lögregluyfirvöld til að bregðast við ef sambærileg atvik koma upp að nýju hér á landi. Þá er heimilt skv. a-lið ákvæðisins að loka léni ef lénið er nýtt í þágu skipulagðrar brotastarfsemi. Hér er ekki átt við það þegar lén er nýtt í þágu lögmætrar fréttaveitu sem fjallar um skipulagða brotastarfsemi eða brotasamtök enda er fréttaflutningur almennt ekki í þágu slíkrar starfsemi heldur til að upplýsa almenning. Hins vegar er ekki hægt að útilokað að sú staða komi upp að samtök sem skilgreind eru sem hryðjuverkasamtök á alþjóðavettvangi komi sér upp sérstökum fréttaveitum og reyni að skrá lén hér á landi undir íslenska landshöfuðléninu .is.
    Skv. b-lið 1. mgr. er hægt að beita úrræðinu ef lén er notað til að miðla ólöglegu efni eða efni sem hvetur til refsiverðrar háttsemi sem varðar við almenn hegningarlög og meint brot getur varðar fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira. Sem dæmi má nefna lén sem er notað til að miðla efni sem hvetur til ofbeldisverka, skemmdarverka o.fl. Telja verður þó hér að mikið þurfi að koma til svo að þessu verði beitt, sbr. að áskilið sé að meint brot geti varðað fangelsisrefsingu allt að tveimur árum eða meira. Þar með eru útilokuð ýmis brot. Þannig þarf efnið að vera alvarlegs eðlis. Lén sem tengist efni þar sem ítrekað er hvatt til friðsamra mótmæla fellur t.d. ekki hér undir.
    Í 2. mgr. er lögð til heimild fyrir lögreglu til að krefjast þess að undangengnum dómsúrskurði að haldleggja lén sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni og reka lénið tímabundið í tengslum við rannsókn opinbers máls og öflun sönnunargagna. Með úrræðinu geta lögregluyfirvöld haldið léni gangandi í ákveðinn tíma til að afla sönnunargagna í sakamáli.
    Í 3. mgr. er að finna skaðleysisákvæði fyrir starfsmenn skráningarstofu vegna aðgerða skv. 1. og 2. mgr. Ljóst er að þegar úrræðum greinarinnar verður beitt er um lögregluaðgerð að ræða sem er á forræði ríkisins. Hins vegar er lögreglu nauðsynlegt að njóta aðstoðar starfsmanna skráningarstofu og með ákvæðinu er komið í veg fyrir að hægt sé að beina kröfum að þeim í einkamáli vegna beitingar úrræðanna.
    Rétt er að taka það sérstaklega fram að meðalhófsreglan gildir við beitingu þessara úrræða eftir sem áður og skal þeim aðeins beitt ef vægara úrræði er ekki fyrir hendi.

Um 12. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að rétthafi léns sem skráð er undir íslensku landshöfuðléni hafi einkaafnotarétt af hinu skráða léni meðan það uppfylli reglur skráningarstofu og hafi ekki verið afskráð. Skráning felur með öðrum orðum ekki í sér eignarrétt á léninu.
    Í 2. mgr. kveðið á um það sem rétthafi beri ábyrgð á og þarfnast ákvæðið ekki frekari skýringa.
    Í 3. mgr. er lagt til, til viðbótar við 2. mgr., að rétthafi beri ábyrgð á því að nafn á léni samrýmist réttmætum og lögmætum hagsmunum hans og skerði ekki lögvarin réttindi annarra. Nafn léns megi ekki tengjast refsiverðri starfsemi eða brjóta gegn gildandi lögum. Þá er einnig lagt til að nafn á léni eigi að samræmast alþjóðlegum skuldbindingum Íslands og ekki vera til þess fallið að skaða orðspor landsins að öðru leyti. Málsgreinina var ekki að finna í frumvarpi því sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi og er fram komið vegna ábendinga Póst- og fjarskiptastofnunar í þinglegri meðferð. Ljóst er að íslenska landshöfuðlénið hefur órjúfanlega tengingu við land og þjóð. Því er mikilvægt að skráningar á landsléninu .is fari saman við þjóðarhagsmuni og verði ekki misnotað í ólögmætum tilgangi eða með þeim hætti að það skaði orðspor Íslands. Umrætt ákvæði yrði skýr og nauðsynlegur leiðarvísir fyrir skráningarstofur og starfandi úrskurðarnefnd léna, sem skipuð er af stjórn ISNIC, til að hafna skráningu léna sem berlega ganga gegn þjóðarhagsmunum og ímynd Íslands.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun fari með eftirlit með því að skráningarstofa uppfylli skilyrði frumvarpsins fyrir starfseminni. Ekki er gert ráð fyrir að eftirlitið sé umfangsmikið heldur afmarkist við að sjá til þess að starfsemi skráningarstofu sé rétt skráð og hún gegni hlutverki sínu. Gert er ráð fyrir að stofnunin kalli eftir þessum upplýsingum a.m.k. einu sinni á tveggja ára fresti og er það að sænskri fyrirmynd. Í ljósi þess að aðeins einn íslenskur aðili flokkast nú sem skráningarstofa og ekki er fyrir séð að svo stöddu að fleiri skráningarstofur starfi hér á landi sökum smæðar markaðarins er umfang eftirlits í algjöru lágmarki. Að öðru leyti vísast til umfjöllunar í 3. kafla greinargerðar.

Um 14. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.

    Með ákvæðinu er lagðar til heimildir fyrir ríkisstjórn Íslands til að setja rekstri landshöfuðléna nauðsynlegar viðbótarreglur sem nauðsynlegar þykja vegna varna Íslands á stríðstímum eða vegna yfirvofandi eða yfirstandandi hryðjuverkaárásar. Ákvæðið er að sænskri fyrirmynd en finna má svipað ákvæði í 72. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003.
    Flestir tengja stríðstíma og stríðsaðgerðir við hermenn og stríðstól en rétt er að benda á að Atlantshafsbandalagið hefur skilgreint netöryggi sem fjórðu vídd sameiginlegra varna bandalagsins og því nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld, sem aðildarland að Atlantshafsbandalaginu, að tryggja stjórn íslenska ríkisins á landshöfuðléninu vegna varna landsins.
    Það skilyrði er fyrir beitingu ákvæðisins að viðbótarreglurnar séu nauðsynlegar vegna varna Íslands, Atlantshafsbandalagsins og almenns öryggis ríkisins.

Um 16. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um 17. gr.

    Í byrjun árs 2014 var sett reglugerð nr. 50/2014 um .eu höfuðlénið. Með reglugerðinni voru innleiddar reglugerðir ESB nr. 733/2002, 874/2004, 1654/2005, 1255/2007 og 560/2009. Markmið reglugerðarinnar var að taka í notkun höfuðlénið .eu og gera íslenskum aðilum kleift að fá úthlutað lénum með endingunni .eu. Reglugerðinni hefur verið breytt einu sinni, með reglugerð nr. 248/2016.
    Í reglugerð ESB 2019/517 eru fyrrgreindar reglugerðir felldar brott og nýjar reglur settar um notkun á höfuðléninu .eu. Reglugerðin felur í sér breytingar á þá leið að borgarar ESB geti, óháð búsetustað þeirra, skráð lén undir höfuðléninu .eu frá og með 19. október nk. Að öðru leyti eru reglurnar betrumbættar, einfaldari og meira lagt upp úr skyldum skráningaraðila.
    Verði reglugerðin tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið verður ráðherra heimilt að taka hana upp með reglugerð. Betur fer á því að stoð fyrir reglugerðinni sé að finna í lögum um lén en í fjarskiptalögum.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um setningu reglugerða verði frumvarpið að lögum.

Um 19. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Lagt er til að bundið verði í fyrirhuguð lög ákvæði um forkaupsrétt til handa ríkissjóði að öllum hlutum í félaginu Interneti á Íslandi hf., ISNIC, kt. 660595–2449. Vísað er til öryggis- og almannahagsmuna þar sem sú þjónusta sem fyrirtækið veitir er nauðsynleg fyrir eðlilega virkni internetsins á Íslandi. Þjónusta og upplýsingamiðlun opinberra aðila jafnt sem fyrirtækja fer nú þegar að miklu leyti fram á netinu og verður samfélagið sífellt háðara hnökralausri virkni þess.
    Því er í frumvarpinu lögð áhersla á að öll umsýsla landshöfuðléna sé örugg, skilvirk og gagnsæ, enda getur misbrestur í þeim efnum valdið orðsporshnekki. Brýnt er að festa í lög lágmarksreglur um lénaumsýslu hér á landi, ekki síst landshöfuðléna, en eitt af þeim atriðum sem óhjákvæmilegt er að gefa gaum við undirbúning slíkrar löggjafar er að það getur skipt máli með hliðsjón af hagsmunum ríkisins og almannahagsmunum hvernig eignarhaldi á skráningarstofum er háttað. Mikilvægt er að tryggja að slík starfsemi sé innan íslenskrar lögsögu og mögulega aðkomu ríkisins að rekstrinum/eignarhaldi, ef á þyrfti að halda.
    Til skoðunar kom að setja eignarnámsheimild í frumvarpið en fallið var frá því með vísan til meðalhófssjónarmiða. Forkaupsréttur samkvæmt ákvæðinu heimilar ríkissjóði að ganga inn í tilboð sem gert hefur verið í félagið. Ríkissjóði er hins vegar ekki skylt að nýta réttinn. Rétt er að nefna að í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru skráningarstofur gjarnan reknar sem sjálfseignarstofnanir sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni. Benda má á t.d. Danmörk, Noreg og Svíþjóð í þessu samhengi.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.